Grúskuvals er þriðja lagið sem hljómsveitin sendir frá sér með myndbandi en um svokallaða myndtónaröð er að ræða, sem mun í heildina geyma 5 lög og myndbönd. Þegar hafa komið út mydbönd við lögin Þjóðlagið og Fram.
Öll myndböndin munu eiga það sameiginlegt að vera leikstýrt af konum, og eru eins fjölbreytt og lögin. Einnig eiga þau það sameiginlegt að túlka texta og hljóðheim hljómsveitarinnar á litríkan og framsækinn máta.
Meðlimir Grúsku Babúsku eru þær Arndís Anna Gunnarsdóttir, Björk Viggósdóttir, Dísa Hreiðarsdóttir, Guðrún Birna le Sage de Fontenay og Harpa Fönn Sigurjónsdóttir. Hljómsveitin var stofuð árið 2012 og gaf út sína fyrstu plötu árið 2013 í formi USB-lykils með útlit babúsku.
Harpa Fönn leikstýrir myndbandinu í samstarfi við þýsku kvikmyndaframleiðendurnar og frumkvöðlana Orange 'Ear, með aðstoð við tökustjórn frá kvikmyndatökukonunni Carolinu Salas.
Grúskuvals fjallar um fortíðardrauga. Minningar, ást, þrá og vonir sem hafa farið forgörðum eða glatast.