Yfir 250 hjúkrunarnemar á 1., 2. og 3. ári frá Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri hafa ákveðið að ráða sig ekki í störf hjúkrunarfræðinga að lokinni útskrift nema betri kjarasamningar náist við ríkið. Hópurinn hefur gefið út yfirlýsingu þess efnis og sent heilbrigðisráðherra.
Rúmlega tvö hundruð hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp störfum á Landspítalanum frá því að lögbann var sett á verkfall þeirra. Skortur er á hjúkrunarfræðingum hér á landi og segir í samstöðuyfirlýsingu nemanna að allt að helmingur stéttarinnar verði óstarfandi eftir nokkur ár ef uppsagnir standi, hjúkrunarfræðingar sem komnir eru á aldur fari á eftirlaun og nemarnir standi við að ráða sig ekki í störf að lokinni útskrift.
„Hjúkrunarfræðinemar hvetja stjórnvöld til að verða við eðlilegum kröfum um laun í samræmi við menntun og ábyrgð og útrýma kynbundnum launamun,” segir meðal annars í yfirlýsingunni. „Ef halda á í nýútskrifaða hjúkrunarfræðinga verða starfskjör að vera samkeppnishæf við nágrannalönd og stéttir með sambærilega menntun.”

