Bandaríski rokkarinn Iggy Pop beið ekki boðanna á tónleikum sínum á ATP hátíðinni í gær. Tónlistarmaðurinn 68 ára gamli reif sig úr að ofan strax í fyrsta lagi sem var eitthvað sem tónleikagestir höfðu ekkert á móti.
Iggy hafði fengið fína upphitun frá bandarísku rappsveitinni Public Enemy sem má svo sannarlega segja að hafi farið á kostum. Mikil stemmning skapaðist við sviðið á meðan rappararnir tóku slagarana sína. Þeir luku tónleikunum með þeirri kveðju að aldrei hefðu þeir fengið viðlíka viðtökur.
Skoska sveitin Belle & Sebastian og Run the Jewels luku svo vel heppnuðu kvöldi sem virtist laust við allt vesen. Tónleikagestir virtust hver öðrum hressari. Þótt að aðeins hefði dropað utan dyra var vel hlýtt inni í Atlantic Studios þar sem hvert bandið á fætur öðru kastaði kveðju á tónleikagesti.
Meirihluti gesta virtist af erlendu bergi brotinn, sumir komnir langt að til að sækja Ísland og ATP heim. Einnig mátti sjá fjölmarga íslenska tónlistarunnendur. Meðal tónleikagesta má nefna Gísla Martein Baldursson, útvarpsmanninn Þossa og Heiðar Örn í Botnleðju.
Ernir Eyjólfsson, hinn tónelskandi ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, lagði leið sína suður með sjó og tók þessar skemmtilegu myndir hér að neðan.

