Daniele Sebastiani, forseti ítalska B-deildarfélagsins Pescara, segir að Birkir Bjarnason verði að finna sér félag sem gangi að kröfum Pescara ætli hann sér ekki að ganga til liðs við Torino.
Flest virtist benda til þess að Birkir væri á leið til Torino, sem leikur í efstu deild á Ítalíu, þegar fréttir bárust þess efnis í dag að hann ætti nú í viðræðum við Basel í Sviss.
„Við komumst að samkomulagi við Torino og allir pappírar eru undirritaðir,“ sagði forsetinn í samtali við calcionews24.com í dag. Birkir átti þó sjálfur eftir að semja um kaup og kjör en í fréttum á Ítalíu er hann sagður hafa hækkað launakröfur sínar.
„Við viljum að loforð okkar verði efnt. En leikmaðurinn verður líka að skilja eitt. Ef hann nær ekki samkomulagi við Toto þá þarf hann að finna annað félag sem gengur að okkar skilyrðum.“
Sebastiani segir að ekkert tilboð hafi borist frá Basel. „Strákurinn var mjög ákveðinn í því að spila í Serie A [á Ítalíu] og við unnum saman að því að uppfylla óskir hans.“
„Ég vil bara að Bjarnason geri sér grein fyrir því að við þurfum að ná samkomulagi við hitt félagið. Annars fer hann ekki neitt.“
