Hann mætir Bandaríkjamanninum Brandon Thatch og þarf að vinna eftir að tapa nokkuð óvænt síðasta bardaga sínum gegn Rick Story sem var aðalbardaginn á stóru kvöldi í Stokkhólmi.
Sjá einnig:Utan vallar: Stóra sviðið bíður eftir frumsýningu Gunnars Nelson í Bandaríkjunum
„Mér leið eins og ég væri ekki að hreyfa mig eins og ég er vanur. Þetta er tilfinning sem maður hefur. Maður getur gleymt sér í ákveðnum hreyfingum,“ segir Gunnar í viðtali við opinbera heimasíðu UFC um tapið gegn Story.
Hann kennir engum öðrum en sjálfum sér um tapið og hrósar einfaldlega Story fyrir flotta frammistöðu.

„Þetta er bara heiðarleiki. Ég er meðvitaður um hvað gerðist. Ég vil bara horfa á hlutina eins og þeir eru. Þetta kvöld stóð ég mig ekki og gerði ekki það sem ég ætlaði að gera. Stundum gerist það og hann stóð sig vel. Ég læri bara af þessu og held áfram,“ segir Gunnar.
Blaðamaðurinn sem tekur viðtalið segir Gunnar einstakan því hann talar ekki illa um andstæðinga sína og gefur mönnum engar fyrirsagnir.
Sjá einnig:Þetta er maðurinn sem mætir Gunnari Nelson
Hann segir mönnum ekki að kalla Gunnar tilfinningalausan þó hann virki afskaplega rólegur alltaf.
„Ég held stundum að fólk ruglist á mér og gaurnum úr Rocky eða einhverjum þannig karakter. En ég er ekki þannig,“ segir Gunnar og hlær, en þar á hann við rússneska hnefaleikakappann Ivan Drago sem Dolph Lundgren lék í Rocky IV.
„Kannski ber ég ekki tilfinningar mínar á torg. Þegar ég er einhverstaðar þar sem er mikið af fólki eða í búrinu þá finn ég ekki fyrir miklu. Ég reyni að spara tilfinningar mínar fyrir fjölskyldu og vini,“ segir Gunnar Nelson.
Vísir er í Las Vegas og fylgir Gunnari Nelson eftir alla vikuna. Ekki missa af neinu. Like-aðu okkur á Facebook, eltu okkur á Twitter og skyggnstu bakvið tjöldin á Snapchat (sport365). Tryggðu þér svo áskrift á 365.is.