Hálfdán Bjarki Hálfdánsson hjá upplýsingamiðstöð ferðamála á Ísafirði segir að það sé ærið verkefni fyrir 2700 manna bæjarfélag að taka á móti 5000 ferðamönnum á einum degi en að bærinn ráði engu að síður vel við þetta. Hann segir mikla vinnu við að markaðssetja Ísafjörð sem viðkomustað skemmtiferðaskipa farna að skila sér.
„Fyrsta skipið kom hingað seint í maí. Það koma alls 63 skip hingað í sumar og með þeim rúmlega 60.000 manns,“ segir Hálfdán.
Skipin tvö sem komu til Ísafjarðar í morgun fara þaðan aftur seinna í dag og halda för sinni áfram meðfram strönd landsins.
„Það er svona þumalputtareglan að skipin koma hingað snemma morguns og sigla aftur út í eftirmiðdaginn. Þau taka þá nóttina í að sigla annað hvort til Reykjavíkur eða Akureyrar.“

