Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, sakaði lánadrottna Grikkja um að kúga grísk stjórnvöld þegar hann yfirgaf leiðtogafund ESB nú síðdegis.
Fulltrúar Grikkja, ESB, Evrópska seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjósins funduðu aftur í í Brussel í dag, án þess að samkomulag um náðist um aðhaldsaðgerðir gríska ríkisins.
Í frétt Reuters segir að Tsipras hafi nú snúið aftur til Aþenu þar sem hann mun ráðgast við aðra ráðherra og fulltrúa Syriza-flokksins.
Forsætisráðherrann hafði þá meðal annars átt 45 mínútna fund með Angelu Merkel Þýskalandskanslara og Francois Hollande Frakklandsforseta þar sem þau hvöttu hann til að samþykkja „rausnarlegt“ boð lánadrottna sem fæli í sér aukið lánsfé sem myndi duga gríska ríkinu fram í nóvember, í skiptum fyrir skattahækkanir og niðurskurð heima fyrir.
Náist ekki samkomulag fyrir mánaðarmót mun Grikkland standa frammi fyrir greiðslufalli þar sem Grikkir þurfa að endurgreiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum 1,7 milljarða evra fyrir þriðjudag.
Tsipras sagði Grikki áfram munu berjast fyrir evrópskum gildum – gildum á borð við lýðræði, samstöðu, jafnræði og gagnkvæma virðingu. „Þessi gildi byggja ekki á kúgunum og úrslitakostum,“ sagði Tsipras þegar hann yfirgaf fundinn.
Tsipras sakar lánadrottna um að kúga Grikki

Tengdar fréttir

Tsipras heldur áfram að reyna að semja við kröfuhafa
Samningaviðræður Grikkja við kröfuhafa ríkisins virðast komnar í strand.

Lánadrottnar hafna tillögum Grikkja
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og ESB hafa hafnað aðhaldstillögum Grikklandsstjórnar til að tryggja Grikkjum frekari lán.

Hafa helgina til að ná samkomulagi um aðgerðir Grikkja
Ekki náðist samkomulag um aðgerðir í gær eftir langan fund í Brussel.