Eins og fram kom á Vísi fyrr í dag hefur Aron Kristjánsson skrifað undir nýjan samning við HSÍ sem gildir til næstu tveggja ára.
„Við erum búnir að vera í viðræðum frá því eftir Serbaleikina en þær drógust vegna leikjaverkefna, bæði hjá Kolding og landsliðinu,“ sagði Aron í samtali við Vísi rétt í þessu.
„Þetta er bara ánægjulegt og nú fer mann bara að hlakka til Evrópumótsins,“ sagði Aron ennfremur en íslenska liðið tryggði sér sem kunnugt er sæti í lokakeppni EM í Póllandi um helgina.
Aron segist ekki hafa haft áhyggjur af því að samningsmálin myndu ekki ganga upp.
„Nei, ég er búinn að vera rólegur yfir þessu. Þetta hafa verið ágætis viðræður allan tímann. Nú þarf bara að klára síðustu atriðin í samningnum því þetta dróst í nokkrar vikur,“ sagði Aron og bætti því við hann væri með ákveðnar verkefnaskyldur í samningum, m.a. að hann muni ekki stýra félagsliði á meðan samningnum stendur. Aron mun einnig koma að uppbyggingu innan handknattleikssambandsins.
Gunnar Magnússon og Ólafur Stefánsson verða Aroni til aðstoðar næstu tvö árin. Hann segir samstarf þeirra þriggja ganga vel.
„Það er mjög gott að hafa þá áfram. Þessi samsetning hefur virkað vel og það er góður taktur í okkar samstarfi,“ sagði Aron að lokum.
Aron: Ánægjuleg lending

Tengdar fréttir

Aron áfram með landsliðið | Gunnar og Óli Stef til aðstoðar
Aron Kristjánsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við HSÍ og mun því stýra íslenska karlalandsliðinu til ársins 2017.

Formaður HSÍ: Skoðuðum ekki aðra kosti í starfið
Handknattleikssambandið gekk frá tveggja ára framlengingu á samningi Arons Kristjánssonar sem landsliðsþjálfara karla í dag.