„Það stefnir í neyðarástand á Landspítalanum í haust, ekki vegna verkfalla, heldur vegna þess að það sem við óttuðumst mest er orðið að veruleika,“ segir Páll Halldórsson formaður samninganefndar BHM. „Mannskapurinn er á förum.“
Í yfirlýsingu frá BHM kemur fram að tillögur bandalagsins til lausnar deilunni hafi verið hafnað líkt og öllum öðrum tillögum. Samningsvilji ríkisins sé enginn þótt BHM hafi samþykkt að semja til fjögurra ára. Verulegrar reiði og óþreyju sé farið að gæta hjá félagsmönnum en þriðjungur geislafræðinga á LSH hefur nú sagt upp störfum. Fjöldi ljósmæðra og dýralækna hefur sótt um störf á öðrum Norðurlöndum.
Hjúkrunarfræðingar funda enn hjá ríkissáttasemjara, en fundurinn í dag er sá fyrsti frá því að upp úr viðræðum slitnaði á föstudaginn. Sá fundur hefur staðið yfir síðan klukkan korter yfir tvö í dag.