Dómnefndin hefur helmingsvægi á móti atkvæðum í símakosningu og því kvöldið í kvöld afar mikilvægt fyrir íslenska hópinn.

Stress sé aðeins farið að gera vart við sig en tilhlökkunin gríðarleg.
„Það er svo mikil orka í loftinu að það er fáránlegt. Maður bara getur ekki verið kyrr,“ sagði Ásgeir Orri Ásgeirsson, einn lagahöfunda Unbroken, þegar Davíð Lúther Sigurðarson hjá Silent náði af honum tali fyrir æfinguna í dag.
Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá þegar hópurinn kom í höllina fyrir æfinguna og undirbjó sig fyrir æfinguna. Friðrik Dór, Selma Björnsdóttir, strákarnir í StopWaitGo og allur hópurinn er greinilega mjög vel stemmdur.

Í lok myndbandsins stígur María síðan á sviðið og syngur lagið af miklu öryggi.
Seinna undanúrslitakvöld Eurovision fer fram á morgun klukkan 19 og verður María tólfta á svið.
Þá ræðst það hvort Íslendingar haldi áfram í aðalkeppnina á laugardag.
Fyrra undanúrslitakvöldið fór fram í gær og komust þá tíu þjóðir áfram af sextán.