Undanþágunefnd Dýralæknafélag Íslands samþykkti í gær takmarkaða slátrun á kjúklingum frá búum þar sem dýravelferðarþættir voru komnir að hættumörkum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá BHM.
Leyfð var slátrun 50.000 kjúklinga og tæplega 1000 kalkúna.
Beiðnin barst undanþágunefndinni í gær en áður hafði ekki verið óskað eftir undanþágu til slátrunar vegna dýravelferðar.
Dýralæknar hófu verkfall síðastliðinn mánudag. Ekki má slátra dýrum á meðan á verkfallinu stendur þar sem dýralæknar þurfa að vera viðstaddir slátranir.

