Sport

HK Íslandsmeistari í blaki kvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Sporttv.is
HK-konur tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld eftir 3-2 sigur í oddaleik á ríkjandi Íslandsmeisturum Aftureldingar.

HK vann þar með titilinn eftir sigur í oddahrinu í oddaleik en þessi sigur liðsins er einn sá óvæntasti í sögunni enda tapaði lið Aftureldingar ekki leik í deildarkeppninnin í vetur.

Bæði HK-liðin urðu þar með Íslandsmeistarar í vetur en HK-karlarnir höfðu tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á Stjörnunni á dögunum.

Þetta var annar sigur HK-kvenna á útivelli í úrslitarimmunni en Afturelding komst í 2-1 í einvíginu eftir 3-0 sigur í leik þrjú.

HK-konur komu hinsvegar til baka, unnu fjórða leikinn á heimavelli og tryggðu sér titilinn í kvöld.

Laufey Björk Sigmundsdóttir átti frábæran leik í liði HK og var öðrum fremur besti maður vallarsins í kvöld.

HK var nálægt því að vinna titilinn strax í fjórðu hrinu en Afturelding skoraði fjögur síðustu stigin og tryggði sér oddahrinu.

HK-konur voru hinsvegar miklu betri í oddahrinunni og tryggðu sér titilinn.

HK vann hrinurnar 25-23, 22-25, 25-22, 24-26 og svo 15-5.

Afturelding vann titilinn í fyrra eftir oddaleik á móti Þrótti úr Neskaupstað en varð nú að sætta sig við að tapa í oddaleik.

Mynd/Sporttv.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×