Pétur Rúnar Birgisson, 19 ára gamall leikstjórnandi Tindastóls, spilaði félaga sína vel uppi í undanúrslitaeinvíginu á móti Haukum sem Stólarnir kláruðu með sigri á Ásvöllum í gær.
Tindastólsliðið vann einvígið 3-1 og komst með því í lokaúrslitin í fyrsta sinn í fjórtán ár.
Pétur sem er að taka þátt í sinni fyrstu úrslitakeppni í úrvalsdeild gaf alls 31 stoðsendingu í leikjunum fjórum á móti Haukum sem gerir 7,8 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Pétur gaf eina stoðsendingu fyrir hvert skot sem hann tók en hann hefur oft hitt betur en í Haukaeinvíginu. Pétur skoraði alls 27 stig í leikjunum fjórum og gaf því fleiri stoðsendingar en stig.
Pétur gaf mest 13 stoðsendingar í leik eitt en hann var með fimm stoðsendingar eða fleiri í öllum leikjunum fjórum.
Pétur er líka sá leikmaður sem hefur gefið flestar stoðsendingar að meðaltali í leik í úrslitakeppninni eða 6,6 að meðaltali í leik en hann er þar ofar en Baldur Þór Ragnarsson (6,33), Emil Barja (5,89), Justin Shouse (5,80) og Stefan Bonneau (5,44)
Pétur hefur líka passað upp á boltann í úrslitakeppninni en hann er með 3,29 stoðsendingar á hvern tapaðan bolta.
Stig og stoðsendingar Péturs Rúnars Birgissonar í Haukaseríunni:
Leikur 1 á Króknum
5 stig og 13 stoðsendingar
Leikur 2 á Ásvöllum
8 stig og 7 stoðsendingar
Leikur 3 á Króknum
5 stig og 6 stoðsendingar
Leikur 4 á Ásvöllum
9 stig og 5 stoðsendingar
Flestar stoðsendingar að meðaltali í úrslitakeppninni:
1. Pétur Rúnar Birgisson, Tindastól 6,6
2. Baldur Þór Ragnarsson, Þór Þ. 6,3
3. Emil Barja, Haukum 5,9
4. Justin Shouse, Stjörnunni 5,8
5. Stefan Bonneau, Njarðvík 5,4
6. Brynjar Þór Björnsson, KR 5,0
7. Darrin Govens, Þór Þ. 4,3
8. Dagur Kár Jónsson, Stjörnunni 4,0
9. Kári Jónsson, Haukum 4,0
10.Jeremy Martez Atkinson, Stjörnunni 4,0
Var með fleiri stoðsendingar en stig í seríunni

Tengdar fréttir

Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Tindastóll 62-69 | Stólarnir í úrslit
Tindastóll er kominn í úrslit í Dominos-deild karla eftir frækinn sigur á Haukum í hörkuleik á Ásvöllum í kvöld.

Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - KR 97-81 | Njarðvíkingar tryggðu sér oddaleik á föstudaginn
Rosalegur þriðji leikhluti skóp flottan sigur fyrir Njarðvíkinga.

Fyrsta liðið til að vinna KR stórt í vetur
Njarðvíkingar jöfnuðu undanúrslitaeinvígi sitt á móti KR með því að vinna sextán stiga sigur á Íslands- og deildarmeisturunum úr Vesturbænum í Ljónagryfjunni í gær, 97-81.

Aðeins fjórði erlendi þjálfarinn sem kemur liði í lokaúrslit
Israel Martin, spænski þjálfarinn hjá Tindastól, kom sínum mönnum í gær í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn þegar liðið sló Hauka út úr undanúrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta.