Halldór Harri Kristjánsson lætur af störfum sem þjálfari Hauka í Olís-deild kvenna í handbolta eftir tímabilið. Þetta kemur fram í frétt á mbl.is.
Halldór hefur stýrt liði Hauka undanfarin þrjú ár. Árið 2013 enduðu Haukar í 8. sæti og töpuðu fyrir Val í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Árið eftir urðu Haukar í 7. sæti en féllu aftur úr leik fyrir Val í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Haukar eru nú í 4. sæti þegar tvær umferðir eru eftir af Olís-deildinni ár en Hafnfirðingar hafa verið á miklu skriði að undanförnu og unnið 11 af síðustu 12 deildarleikjum sínum.
Þá komst liðið í undanúrslit Coca-Cola bikarsins þar sem það tapaði fyrir Val, 22-20.
Ekki er ljóst hver eftirmaður Halldórs verður eða hvað tekur við hjá honum sjálfum samkvæmt frétt mbl.is.
