Tveir Slóvenar fuku af velli í leiknum við Dani, línutröllið Matej Gaber í byrjun seinni hálfleiks fyrir að setja olnbogann þéttingsfast í Mads Christiansen og 5 mínútum síðar fauk annar línumaður af velli, Miha Zvizej sem sagði þetta í samtali við Vísi eftir leikinn.
„Við vorum eitthvað að kljást ég og Jesper Nöddesbo og ég lyfti höndunum, ég veit ekki hvort ég lendi í andlitinu á honum en eitt er víst að þetta var enginn ásetningur. Ég bað Jesper afsökunar og hann hló og sagði að þetta hefði ekki verið nokkur skapaður hlutur."
Hvernig fannst þér frammistaða dómaranna frá Katar?
„Áherslur dómaranna í þessu móti gera það að verkum að það er erfitt að spila af krafti. En við getum ekkert verið að velta okkur upp úr þessu því núna verðum við að einbeita okkur að leiknum við Þjóðverja. En mér fannst leiðinlegt að geta ekki klárað leikinn“.
Eru það vonbrigði hjá ykkur Slóvenum að lenda í 7. eða 8. sæti?
„Nei þetta eru ekki vonbrigði. Markmiðið fyrir HM var að eiga möguleika á því að komast í keppnina um sæti á Olympíuleikunum. Við erum búnir að standa okkur vel en við vildum ná 5. sætinu til að fá að halda keppnina í Slóveníu."
