Norska félagið Viking Stavanger hafnaði 100 milljóna króna tilboði belgíska úrvalsdeildarliðsins Lokeren í miðvörðinn Sverri Inga Ingason, samkvæmt heimildum Vísis.
Fótbolti.net greindi fyrst frá því að tilboð hefði borist frá Lokeren í leikmanninn sem spilaði sitt fyrsta tímabil í atvinnumennsku í norsku úrvalsdeildinni á síðustu ári.
Stavanger Aftenblad greinir frá því að Viking hafi hafnað tveimur tilboðum frá danska úrvalsdeildarliðinu Nordsjælland, en það seinna var tilboð upp á fimm milljónir norskra króna eða 86 milljónir íslenskra króna.
Þriðja tilboðið hefur borist Viking og það frá Lokeren, en samkvæmt heimildum Vísis bauð belgíska félagið um 650.000 evrur í Sverri. Það gera rétt tæpar 100 milljónir króna.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Norsjælland, er því kominn í harða samkeppni um sinn fyrrverandi lærisvein, en ljóst er að verðmiðinn á Sverri hefur hækkað verulega á þessu eina ári.
Aftenbladet segir Viking hafa borgað Breiðabliki um 17 milljónir íslenskra króna fyrir Sverri, en Lokeren hefur nú boðið ríflega fimmfalda þá upphæð.
Viking hafnar 100 milljóna króna tilboði Lokeren í Sverri Inga
Tómas Þór Þórðarson skrifar

Mest lesið





Magnús Orri tekur við formannsstólnum af Páli
Íslenski boltinn




„Þú ert að tengja þetta við Rashford“
Enski boltinn
