Maður sem faldi hóp fólks, þar á meðal barn, í kæligeymslu í kjallara verslunarinnar þar sem Amedy Coulibaly réðist vopnaður inn og hélt fólki í gíslingu er fagnað sem hetju. Maðurinn, hinn 24 ára gamli múslími Lassana Bathily, hætti lífi sínu til að koma fólkinu í felur.
„Þegar þau komu hlaupandi niður opnaði ég dyrnar að kæligeymslunni,“ sagði hann í samtali við franska sjónvarpsstöð. Bathily segist hafa slökkt ljósin og á kælinum sjálfum, sagt þeim að halda ró sinni og að vera þögul. Hann lokaði svo fólkið inni í frystinum og fór sjálfur upp í búðina.
Lögreglan hélt að Bathily væri í slagtogi með Coulibaly þegar hann náði að sleppa í gegnum vörulyftu. „Þau sögðu við mig: „leggstu á jörðina, hendur ofan á höfuð.“ Þau handjárnuðu mig og héldu mér í fjóra og hálfan tíma eins og ég væri með þeim,“ sagði hann. Eftir að hafa verið leystur úr haldi gat hann gefið lögreglu upplýsingar um verslunina og hvar fólk væri í felum.
Eftir að umsátrinu lauk komu margir af þeim sem Bathily hafði hjálpað og þökkuðu honum fyrir. „Þegar þau komu út þá þökkuðu þau mér,“ sagði hann. Fjölmargir hafa kallað eftir því á samfélagsmiðlum að Bathily verði veitt viðurkenning fyrir að sýna slíkt hugrekki að hjálpa fólkinu í búðinni.
Fjórir létu lífið þegar Coulibaly réðist inn í verslunina vopnaður tveimur Kalashnikov-hríðskotarifflum en hann féll sjálfur í aðgerðum lögreglu þegar hún batt enda á gíslatökuna.
Ungur maður bjargaði fólki í gíslatökunni í París

Tengdar fréttir

Leitin að Boumeddiene heldur áfram
Grunuð um aðild að voðaverkunum í París.

Frakkland verður í viðbragðsstöðu næstu vikurnar
Búist er við milljón manns á samstöðufund í París á morgun.

Fjölskylda Coulibaly fordæmir gíslatökuna
Móðir Coulibaly og systir hans hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þær lýsa yfir samúð með fjölskyldum fórnarlambanna.

Blaðamenn ræddu við árásarmennina – Myndbönd
„Við erum að segja þér að við erum verjendur spámannsins,“ sagði Cherif Kouachi.