„Við erum öll Charlie, við erum öll lögregla og við erum öll gyðingar Frakklands,“ sagði forsætisráðherra Frakklands fyrr í dag.
Beina útsendingu frá Lýðveldis má sjá hér að neðan. Samstöðufundurinn sjálfur hefst klukkan tvö að íslenskum tíma.
Fjöldi þjóðarleiðtoga hafa komið saman í París og þeirra á meðal eru andstæðingar eins og Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, og Mahmoud Abbas, forseti Palestínu.
„París er höfuðborg heimsins í dag,“ sagði Francois Hollande skömmu áður en hann tók á móti þjóðarleitogunum.
Gífurlega öflug öryggisgæsla er nú í Frakklandi og er landið enn á hæsta viðvörunarstigi. Þúsundir lögreglumanna og hermanna eru á og við Lýðveldistorgið. Þá hefur leyniskyttum verið komið fyrir á húsþökum víða í miðborg Parísar. Samkvæmt Sky News eru einnig 150 óeinkennisklæddir lögregluþjónar í þvögunni.
Leiðtoga þjóðernissinna í Frakklandi var ekki boðið að taka þátt í samstöðufundinum með öðrum stjórnmálaleiðtogum landsins. Hún hefur því hvatt fylgjendur sína að hundsa viðburðinn og halda frekar eigin samstöðufundi víða um landið.