Lögregluþjónar í Búlgaríu handtóku Frakkann Fritz Joly Joachin við landamæri Tyrklands á nýársdag. Hann er grunaður um tengsl við bræðurna sem réðust á skrifstofu Charlie Hebdo í síðustu viku og myrtu 12 manns.
Samkvæmt vef Wall Street Journal reyndi hann að fara yfir landamærin til Tyrklands. Hann er eftirlýstur í Frakklandi fyrir að hafa rænt barni. Í gær var lögð fram önnur ákæra á hendur honum tengd við hryðjuverk.
Í ákærunni segir að hann hafi verið í samskiptum við Kouachi bræðurna áður en þeir framkvæmdu fjöldamorðið í París.
Eiginkona hans hafði áður kært hann fyrir að hafa rænt þriggja ára syni þeirra og að hann ætlaði að fara með hann til Sýrlands. Dómstólar í Búlgaríu segja að barnið eigi að fara aftur til móðurinnar, en Joachin þvertók fyrir að hafa ætlað að fara til Sýrlands.
Búlgarskir fjölmiðlar hafa eftir Joachin að hann hafi verið í fríi með syni sínum og kærustu, sem sé frá Tyrklandi og að eiginkona hans sé í París með yngra barn þeirra. Hann segist ekki vera íslamisti. Innanríkisráðherra Búlgaríu hefur sagt að hann hafi ekkert á móti því að framselja Joachin, en dómstólar munu taka ákvörðun á föstudaginn.
