„Áður en kemur að leiknum við Alsír [á morgun] þurfum við að fara yfir það sem fór úrskeiðis í Svíaleiknum. Við þurfum að taka tapinu eins og alvöru karlmenn - það er ekkert annað í boði. Við verðum að sýna hversu góðir við getum verið.“
Guðjón segir skýringarnar margar á slæmum leik liðsins gegn Svíum. „Ein þeirra stendur fyrir framan þig. Ég tek ekki allt á mig en ég var stór hluti vandans í gær. Stundum er maður góður og manni er hrósað en maður þarf líka að geta tekið því þegar maður er lélegur. Við vitum það þeir sem voru lélegir í gær hvað þarf að gera betur og við gerum það á morgun.“
Fyrirliðinn segir að baráttan í Svíaleiknum hafi verið í lagi. „Eins ótrúlega og það hljómar að þá var baráttan og vilji leikmanna í fínu lagi. Við létum draga úr okkur tennurnar af þeirra vörn og markverði en mér fannst liðið aldrei gefast upp. Þetta er eitthvað sem hægt er að byggja á. Það hefði verið annað ef menn hefðu gefist upp eða lagst í jörðina og farið að grenja. Þetta var ekki bara viljaleysi eða leti heldur slæmur leikur af okkar hálfu og alltof margar rangar ákvarðanir sem við tókum.“