Íslenska landsliðið í handknattleik heldur utan á morgun þar sem lokaundirbúningur liðsins fyrir HM fer fram í Svíþjóð og Danmörku.
Þrír leikir á þrem dögum gegn Dönum, Svíum og Slóvenum. Liðið fer svo til Kaupmannahafnar og verður þar í sólarhring áður en flogið verður til Doha í Katar. Fyrsti leikur Íslands á HM er 16. janúar.
Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari mun taka allan 20 manna æfingahópinn til Danmerkur á morgun en líklegt er að hann muni byrja að skera niður í hópnum strax eftir fyrsta leik á föstudag.
Landsliðsþjálfarinn má vera með 16 manna hóp á HM en líklegt er talið að hann taki samt 17 leikmenn með út. Skipta má tvisvar um leikmann á mótinu og er þægilegra að hafa mann á staðnum ef eitthvað kemur upp í stað þess að viðkomandi þurfi að fljúga um langan veg.
Landsliðið er með opna æfingu fyrir fjölmiðlamenn í hádeginu og mun Vísir flytja fréttir af æfingunni síðar í dag.

