Liberation fór þá leið að birta mynd með textanum „Nous Sommes Tous Charlie“, eða „Við erum öll Charlie“, sem vísar í textann „Je Suis Charlie“ („Ég er Charlie“) sem hefur verið áberandi í viðbrögðum fólks við árásinni.
Mikill samhljómur var meðal frönsku blaðanna í morgun þrátt fyrir að hafa almennt ólíka sýn á samfélagið. Þannig voru Le Figaro, sem þykir íhaldssamt, og vinstri blaðið l'Humanite bæði með fyrirsagnir sem byggja á hugmyndinni um að frelsið hafi verið tekið af lífi.
Kaþólska blaðið La Croix kaus að birta skopmynd á forsíðu sinni með textanum „Frakkland myrt“. Le Telegramme var með nöfn nokkurra fórnarlambanna á forsíðu sinni undir fyrirsögninni „Tekin af lífi“ og íþróttablaðið L‘Equipe með fyrirsögnina „Frelsi 0 – Barbarar 12“.
