Um er að ræða hljómsveit sem skipuð er virtum hljóðfæraleikurum á heimsvísu en þeir eru gítarleikarinn Guthrie Govan, trommuleikarinn Marco Minnemann og bassaleikarinn Bryan Beller. „Þetta eru allt miklir töframenn á sín hljóðfæri og hafa komið víða við,“ segir Tom. Til að mynda hefur bassaleikarinn Bryan Beller starfað með Stevie Vai og Dweezil Zappa.
Sveitin var stofnuð fyrir slysni árið 2011 og æfði bara einu sinni fyrir sínu fyrstu tónleika. „Ég veit allavega að Guthrie vill prófa nýja hluti á tónleikum. Þeir hafa vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína á tónleikum og eru á tónleikaferðalagi um heiminn núna,“ segir Tom. Sveitin er nýkomin frá Asíu og er nú á ferð um Evrópu.
The Aristocrats hefur gefið út tvær hljóðversplötur, eina samnefnda hljómsveitinni árið 2011 og Culture Clash á síðasta ári. Þá hefur hún einnig gefið út tónleikaplötu, Boing, We'll Do It Live! árið 2012.