Þetta var í fimmtánda sinn sem Tómas gekk á Herðubreið en segir að þessi ferð hafi verið sú allra eftirminnilegasta enda löng og brött brekka niður fjallið.
„Það var hópur frá Fjallafélaginu sem hafði gengið á fjallið helgina á undan og þau sögðu mér að þarna væri mikill snjór. Ég var með fjallaskíðin í bílnum og gat ekki hætt að hugsa um þetta, enda lengi dreymt um að skíða þarna niður. Síðan plataði ég konuna til þess að keyra með mér að rótum fjallsins,“ segir Tómas, sem var um tvo og hálfan tíma að komast upp á topp með fjallaskíðin á bakinu.

Tómas er mikill fjallgöngumaður en hann starfaði sem fjallaleiðsögumaður á meðan hann var í læknanámi. Hann segir frábært að geta sameinað fjallgönguna og skíðaáhugann.
„Mér finnst alveg magnað að geta prílað þarna upp og farið niður á skíðunum. Þetta er svolítið nýja æðið í fjallamennsku á Íslandi og sem betur fer eru sífellt fleiri að uppgötva fjallaskíðin. Í rauninni fara skíðin miklu betur með líkamann og þá sérstaklega hnjáliðina. Uppgangan er auðveld en mest munar um minna álag á hnén, þegar gengið er aftur niður.“

„Þetta er annað sumarið í röð sem ég er með skíðin í bílnum á ferðalagi um landið. Ég skíðaði með Ólafi Má Björnssyni augnlækni niður Kverkfjöllin í sumar og svo skelltum við okkur einnig niður Birnudalstind í sunnanverðum Vatnajökli. Svo fór ég á gönguskíðum inn í Öskju að skoða hamfarahlaupið svo sumarfríið mitt var í rauninni skíðafrí.“