Skoðun

Hvatning til Mosfellinga

Bjarki Bjarnason og Ólafur Gunnarsson skrifar
Þann 31. maí ganga landsmenn til kosninga og velja það fólk og framboð sem þeir treysta best til að stýra sveitarfélagi sínu á komandi kjörtímabili. Í Mosfellsbæ eru sex listar í framboði, þar á meðal listi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hann er skipaður öflugu fólki sem byggir á sterkum málefnagrunni; við höfum gefið út vandaða stefnuskrá sem má meðal annars lesa á heimasíðunni www.vgmos.is.

Síðastliðin átta ár hefur VG látið mikið að sér kveða í bæjarmálunum í Mosfellsbæ og starfað í meirihluta með D-lista. Vinstri-græn og sjálfstæðismenn hafa auðvitað ekki alltaf verið sammála um einstök mál en ævinlega komist að sameiginlegri niðurstöðu eftir hreinskiptna umræðu.

Mosfellsbær hefur farið í stefnumótunarvinnu á einstökum sviðum og á margvíslegan hátt haft samráð við íbúana um þá vinnu. Fráfarandi oddviti VG, Karl Tómasson, hefur einstaka hæfileika í samningslipurð og mannlegum samskiptum og í þeim anda munum við starfa áfram, hljótum við til þess stuðning frá bæjarbúum.

Skoðanakönnun Morgunblaðsins, sem birtist þann 17. maí sl., bendir til þess að V-listi fái einn mann kjörinn í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. En hér var um að ræða könnun en ekki kosningar og reynslan hefur kennt okkur að ekkert sé fast í hendi í þessum efnum fyrr en úrslitin liggja á borðinu.

Við teljum það afar mikilvægt að rödd VG fái að heyrast kröftuglega á komandi kjörtímabili. Þess vegna hvetjum við Mosfellinga til að tryggja V-lista brautargengi í kosningunum þann 31. maí.

Sérhvert atkvæði skiptir máli!




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×