
Mig langaði að gera eitthvað svipað fyrir HönnunarMars, og spurði Magnús Geir, þáverandi leikhússtjóra, hvort ég mætti halda samsýninguna í forsalnum. Hann tók rosalega vel í þetta, og stakk upp á því að við tækjum fyrir leikritið „Furðulegt háttalag hunds um nótt“.
Það er frábær saga sem býður upp á ríkulegt og fjölbreytt myndmál,“ útskýrir Fanney Sizemore, sýningarstjóri Furðulegs háttalags hönnuða.

Fanney valdi saman ólíkan hóp hönnuða sem allir fengu bókina að lesa, handritið að leikritinu, miða á leiksýninguna og fund með Hilmari Jónssyni leikstjóra og Finni Arnari Arnarsyni, leikmyndahönnuði sýningarinnar.
Hönnuðirnir fengu síðan frjálsar hendur við útfærslu plakatanna.
„Það gilda að mörgu leyti sömu lögmál þegar kemur að hönnun plakata og annarri grafískri hönnun en þó er enn þá mikilvægara að eitthvað dragi mann að. Plakötin eru fyrst og fremst auglýsing sem þarf að standa sterk,“ segir Fanney.


Alli Metall, Bobby Breiðholt, Bjadddni, Fanney Sizemore, Friðrik Svanur Sigurðarson, Helga Valdís Árnadóttir, Helgi Páll Einarsson, Inga María, Jónas Valtýsson og Erla María, Ragnar Freyr, Sig Vicious, Sunna Ben,Sönke Holz og Tobba Ólafsdóttir.
Sýningin verður opnuð í forsal Borgarleikhússins á mánudag klukkan 16.