Hljómsveitin var stödd í höfuðborg Þýskalands, Berlín, þegar að blaðamaður Fréttablaðsins náði tali af söngvaranum.
Sveitin hélt út þann 31. janúar og dvelur ytra til 10. febrúar. „Við spilum á sjö tónleikum í heildina, fimm tónleikum víðs vegar um Þýskaland og svo verða stakir tónleikar í Austurríki og í Sviss,“ útskýrir Valdimar.
Tónleikastaðirnir eru misjafnir, allt frá leikhúsum yfir í stofur í heimahúsum. „Við spiluðum á svokölluðum stofutónleikum sem fram fóru í stofunni heima hjá kærustu gítarleikarans í hljómsveitinni Kapnorth sem er frá Sviss.“

Ferðalagið hefur gengið vel hingað til og hefur ávallt myndast góð stemning á tónleikum sveitarinnar. „Þetta hefur gengið vel, við höfum ekki lent í neinum hremmingum nema þegar Kristinn hljómborðsleikari braut spegla í íbúðinni sem við gistum í.“ Kristinn Evertsson hljómborðsleikari varð fyrir því óláni að brjóta tvo spegla í íbúð sem sveitin dvaldi í sem varð til þess að fleiri meðlimir skáru sig á speglabrotunum. „Þetta var nú bara slys, ekkert alvarlegt en það skáru sig reyndar nokkrir.“
Eins og flestir vita eru textar sveitarinnar á íslensku, hvernig tekur fólk íslensku textunum ytra? „Í gærkvöldi var ég að tala við Þjóðverja sem mættu á tónleika, ég sagði að við værum að pæla í að semja enska texta sem myndu henta betur á erlendan markað, þá sagði Þjóðverjinn að það væri miklu betra að hafa textana á íslensku. Íslenskan hefur því hingað til bara verið til góðs,“ útskýrir Valdimar.
Spurður út í þau verkefni sem taka við þegar heim er komið, segir Valdimar vinnu í nýrri plötu taka við. „Við erum búnir að taka upp nokkra grunna og ætlum að halda áfram að vinna í nýju plötunni,“ segir Valdimar og bætir við að sveitin stefni á að gefa út nýja plötu síðar á árinu. Hljómsveitin hefur áður gefið út tvær breiðskífur, Undraland og Um stund.