Spænska blaðið Sport í Barcelona hefur komist yfir teikningar af nýja Barcelona-búningnum og samkvæmt þeim verður búningur næsta tímabils sögulegur.
Nýi Barcelona-búningurinn stefnir nefnilega í það að vera þverröndóttur í fyrsta sinn í 115 ára sögu félagsins. Sport-blaðið talaði um að þessar fréttir væru "Bomba" fyrir stuðningsfólk spænska liðsins.
Josep Maria Bartomeu, forseti Barcelona, er búinn að samþykkja breytingarnar á búningnum samkvæmt fréttinni en Barcelona er með samning við Nike.
Búningur Barcelona hefur vissulega tekið mörgum sinnum breytingum frá stofnun félagsins. Liðið spilar oftast í röndóttum búningum en hefur einnig verið í einlita búningi, búningi með eina rönd eða jafnvel búningi með eina þverrönd.
Þetta er hinsvegar í fyrsta sinn sem fjórar rendur verða þvert yfir búninginn. Búningurinn mun verða blár en rendurnar rauðar.
