Starfsmenn stjórnarráðsins telja sig ekki þekkja siðareglur vel. Þetta kemur fram í könnun sem Ríkisendurskoðun gerði á meðal starfsmanna. Ríkisendurskoðun hefur sent forsætisráðuneytinu og fjármála- og efnahagsráðuneytinu erindi þar sem ráðuneytin eru hvött til að tryggja starfsfólki sínu reglubundna fræðslu um siðareglur stjórnarráðsins.
Stofnunin hvetur ráðuneytin til að skipa nýja samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna. „Þá hvetur stofnunin forsætisráðuneyti til að beita sér fyrir því að ráðuneytin fylgi samræmdri stefnu við að ná þeim markmiðum sem reglurnar kveða á um,“ segir á vef Ríkisendurskoðunar.
Könnunin leiddi líka í ljós að innan ráðuneytanna hefur lítil áhersla verið lögð á fræðslu um reglurnar og eftirfylgni með þeim. „Þó var nokkur munur milli ráðuneyta hvað þetta varðar,“ segir á vef stofnunarinnar.
Siðareglur fyrir starfsfólk Stjórnarráðs Íslands voru staðfestar af Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, árið 2012. Á sama tíma stóð til að samþykktar yrðu sérstakar siðareglur fyrir aðstoðarmenn ráðherra. Það gekk þó aldrei eftir þó að drög hafi verið unnin.
Mál fyrrverandi aðstoðarmanns innanríkisráðherra, Gísla Freys Valdórssonar, hefur varpað kastljósinu að störfum aðstoðarmanna. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu gilda engar sérstakar siðareglur fyrir aðstoðarmennina en heldur er ekki til starfslýsing fyrir þá.
Í drögum að siðareglum aðstoðarmanna sem ekki voru samþykktar kemur til að mynda fram að þeir hafi ekki boðvald yfir starfsmönnum ráðuneyta, samkvæmt heimildum.
