Innlent

Varað við stormi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/stefán
Veðurstofan spáir stormi norðvestan til á landinu og við suðausturströndina fram eftir degi. Einnig er búist við mikilli rigningu suðaustan- og austanlands í fyrstu. Í morgun, um klukkan sex, var austan- og norðaustan hvassviðri eða stormur norðvestan til á landinu og við suðausturströndina en annars hægari vindur. Víða er rigning, en talsverð eða mikil rigning suðaustan- og austanlands. Hiti var 3-12 stig, hlýjast á Skrauthólum.

Veðurhorfur á landinu:

Norðaustanátt, 15-23 norðvestantil og við suðausturströndina, en annars hægari vindur. Víða rigning, en talsverð eða mikil úrkoma suðaustan- og austanlands. Heldur hægari og úrkomuminna síðdegis. Austlæg átt 5-13 síðdegis á morgun og þurrt að mestu, en dálítil rigning suðaustantil. Hiti 4 til 13 stig, hlýjast sunnan heiða.

Veðurhorfur á höfuðborgarsvæðinu:

Austan og norðaustan 10-15 m/s, skýjað og dálítil rigning með köflum. Heldur hægari síðdegis. Austan 5-10 og þurrt að kalla eftir hádegi á morgun. Hiti 7 til 12 stig.

Færð:

Vegir eru auðir á Suður- og Suðausturlandi en það er enn býsna hvasst á Reynisfjalli.

Það er nánast greiðfært á Vesturlandi en varað er við vindhviðum við Hafursfell. Á Vestfjörðum eru hálkublettir nokkuð víða, einkum á fjallvegum en þar er einnig víða mjög hvasst.

Mikið er orðið autt bæði á Norður- og Austurlandi. Þó er flughált í Bárðardal og hálka á Hólasandi. Hálkublettir eru á Oddsskarði. Óveður er á Hófaskarði og Vatnsskarði eystra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×