Hægt verður að fá sér jólabjór í kvöld á börum bæjarins þar sem Thule-jólabjórinn fer í dreifingu í dag. Jólabjórinn hefur notið vaxandi vinsælda á undanförnum árum en salan í fyrra nam 616.000 lítrum og var það 7,5% aukning milli ára.
Jólabjórinn hefur aldrei farið í dreifingu svona snemma og segir Hreiðar Þór Jónsson, markaðsstjóri bjórs hjá Vifilfelli, ástæðuna vera aukið vægi jólabjórs í bjórmenningu landans.
„Veðrið var ekki upp á marga fiska í sumar og í raun er búið að vera haust í nokkra mánuði. Við ákváðum þess vegna að þjófstarta jólunum og koma með jólabjórinn fyrr í ár. Enda eðlilegt að jólin komi snemma fyrst að haustið kom í júlí. Svo sjáum við líka bara að það er aukin eftirspurn og við þurfum að byrja að selja fyrr til að mæta þeirri eftirspurn,“ segir Hreiðar.
Hann segir að samkvæmt reglum Vínbúðanna megi ekki selja jólabar þar fyrr en 15. nóvember og ekki lengur en til 6. janúar. Hins vegar sé ekkert sem banni að dreifing byrji fyrr til veitingastaða og fríhafnarinnar.
Thule jólabjórinn fer því á dælur og kæla á nokkrum tugum veitingahúsa og kráa til að byrja með og í næstu viku verður hann einnig fáanlegur í Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli. Þá styttist síðan í að Víking jólabjórinn komi á markað en búist er við því að það verði í lok mánaðarins.
Sala á jólabjór hefst svo í verslunum ÁTVR þann 14. nóvember næstkomandi þar sem 15. nóvember ber upp á laugardag.
Jólabjórinn er lentur
