Danska tennisstjarnan Caroline Wozniacki fór ekki langt á opna kínverska mótinu en hún er úr leik eftir tap á móti Samantha Stosur frá Ástralíu í 2. umferð.
Wozniacki var búinn að spila vel að undanförnu og komst alla leið í úrslitin á opna bandaríska mótinu á dögunum. Það var aftur á móti stutt gaman hjá henni í Peking.
Stosur vann leikinn á móti Wozniacki 6-4 og 7-6 (11-9) og mætir annaðhvort Alize Cornet eða Lauren Davis í sextán manna úrslitunum.
Petra Kvitova sló út hina kínversku Peng Shuai, 6-4 og 6-2, og mætir Venus Williams í næstu umferð.
Wozniacki var raðað númer sex inn í mótið en þær efstu fjórar, Serena Williams, Simona Halep, Petra Kvitová og Maria Sharapova eru allar á lífi. Hin pólska Agnieszka Radwańska, sem var raðað númer fimm, er hinsvegar úr leik eftir tap á móti Robertu Vinci frá Ítalíu.
