Íslenski boltinn

Rúnar í viðræðum við norskt úrvalsdeildarlið - ekki Lilleström

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rúnar Kristinsson gæti tekið við atvinnumannaliði eftir tímabilið.
Rúnar Kristinsson gæti tekið við atvinnumannaliði eftir tímabilið. vísir/daníel
„Ég flaug bara út í gær í smá viðskiptaferð og kom heim í dag,“ segir RúnarKristinsson, þjálfari KR, í samtali við Vísi um ferð hans til Noregs í gær þar sem hann átti í viðræðum við norskt úrvalsdeildarlið.

„Ég átti þarna einn fund sen ég þurfti að taka, en ég get ekkert meira sagt um það. Þetta var samt ekki Lilleström eins og allir halda,“ segir Rúnar sem hefur verið sterklega orðaður við sitt gamla félag að undanförnu.

Rúnar vill ekki gefa upp nafn liðsins, segist ekki geta það að svo stöddu, en viðræðurnar eru rétt svo farnar af stað og óvíst hvort þær fari lengra.

„Ég var bara í léttu spjalli við einn klúbb þarna úti. Þetta eru bara fyrstu viðræður og ekkert sem ég get farið nánar út í,“ segir Rúnar sem nýtur lífsins í Vesturbænum og segist ekkert vera að flýta sér út.

„Ég er ofsalega ánægður hjá KR og að vera á Íslandi. Það þarf eitthvað gott að koma upp svo ég flytji mig um set. En ég tapa engu á því að tala við fólk án skuldbindinga eins og ég var að gera núna. Þá er hægt að heyra og sjá hvað menn eru að hugsa og hvort það sé nálægt því sem ég vill gera.“

„Þetta er oft ferli sem tekur langan tíma og það eru stórar ákvarðanir sem bæði ég og aðrir þurfa að taka. Maður þarf að hugsa líka um fjölskylduna og allt í kringum sig. Það er ekki búið að bjóða mér neitt. Við vorum bara aðeins að kynnast hvor öðrum. Það hefur ekki verið rætt um neina samninga,“ segir Rúnar.

Sem fyrr segir hefur mikið verið skrifað og skrafað um mögulega endurkomu Rúnars til Lilleström að undanförnu, en hann lék þar við góðan orðstír frá 1997-2000. Hann segir einfaldlega verið að reyna að skrifa sig til liðsins, það sé ekkert í gangi.

„Sú er staðan í dag. Þetta eru sömu vangaveltur og í fyrra um að þessi þjálfari liðsins sé að hætta. Þá vilja blaðamennirnir á staðarblöðunum oft fara að giska á hver tekur við og ég hef verið settur í þann hóp,“ segir Rúnar Kristinsson.

Rúnar á eftir að stýra KR gegn Víkingi næsta sunnudag og Þór á heimavelli á laugardaginn eftir viku sem gæti mögulega verið síðasti leikur hans við stjórnvölinn hjá vesturbæjarliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×