Íslenski boltinn

Í eigin Heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Guðjónsson og lærisveinar hans eru með tveggja forystu á toppi Pepsi-deildar karla.
Heimir Guðjónsson og lærisveinar hans eru með tveggja forystu á toppi Pepsi-deildar karla. Vísir/Vilhelm
FH-ingar stigu ekki aðeins mikilvægt skref í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn með sigrinum á Fram um helgina því leikmenn FH-inga komu einnig þjálfara sínum í sögubækurnar.

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH-liðsins, var nefnilega að stýra liðinu til sigurs í hundraðasta sinn í úrvalsdeildinni en hann er á sínu sjöunda tímabili með Hafnarfjarðarliðið.

Heimir er hreinlega í eigin heimi þegar kemur að því að þurfa fæsta leiki til að fagna sínum hundraðasta þjálfarasigri í efstu deild. Sá hundraðasti hjá Heimi vannst eftir aðeins 152 leiki. Heimir er heilum 38 leikjum á undan Ásgeiri Elíassyni sem var áður eini þjálfarinn sem hafði náð þessu á innan við tvö hundruð leikjum.

Fjórir aðrir þjálfarar en Heimir hafa stýrt liðum til sigurs í hund­rað leikjum en allir fyrir fleiri en eitt lið. Heimir var fyrir nokkru búinn að taka annað met af Ásgeiri sem komst næst hundraðinu með eitt lið þegar hann stýrði Framliðinu til sigurs í 96 leikjum á sínum tíma.

FH-liðið hefur aldrei hafnað neðar en í öðru sæti undir stjórn Heimis og á nú möguleikann á því að vinna sinn fjórða Íslandsmeistaratitil síðan Heimir tók við af Ólafi Jóhannessyni fyrir 2008-tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×