Íslenski boltinn

Draumur síðan ég var ungur að komast út í atvinnumennsku

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Árni var í stuði á sunnudaginn.
Árni var í stuði á sunnudaginn. Vísir/Valli
„Hjólin fóru loksins að snúast í þessum leik. Mér fannst við ná að spila vel sem lið og klára leikinn af krafti,“ segir Árni Vilhjálmsson, leikmaður 20. umferðar Pepsi-deildar karla að mati Fréttablaðsins, en hann skoraði þrennu í 4-1 sigri Blika á Víkingum um helgina.

Þetta var fyrsta þrenna sumarsins í deildinni en Árni er næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar með tíu mörk. „Það eru enn tvær umferðir eftir og vonandi er enn tími til að skora fleiri þrennur í deildinni,“ bætir hann við.

Breiðablik hefur gert tólf jafn­tefli í sumar og Árni neitar því ekki að sigurinn á Víkingum hafi verið kærkominn. „Það er vissulega betra að gera jafntefli en að tapa leikjum. En þau voru vissulega orðin þreytandi,“ segir Árni og bætir við að tímabilið hafi reynst leikmönnum liðsins dýrmætur lærdómur. „Við erum margir í liðinu sem erum vanir mikilli velgengni í yngri flokkum Breiðabliks og því var sumarið í ár góð reynsla fyrir okkur,“ segir sóknarmaðurinn.

Árni hefur skorað tíu mörk í sumar og hefur vakið athygli, innan vallar sem utan. „Ég hugsa lítið um það, þannig séð. Ég reyni að sinna mínu inni á vellinum og vonandi er maður að gera eitthvað rétt sem muni skila sér á endanum. Það hefur verið draumur minn síðan ég var ungur að komast út í atvinnumennsku og það yrði mjög gaman ef sá draumur myndi rætast. Þangað til einbeiti ég mér að því að spila eins vel og ég get hér heima,“ sagði Árni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×