Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fram - Fjölnir 1-3 | Fjölnir úr fallsæti á kostnað Fram

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Laugardalsvelli skrifar
Þórir Guðjónsson og Matthew Ratajczak fagna marki í kvöld.
Þórir Guðjónsson og Matthew Ratajczak fagna marki í kvöld. vísir/daníel
Fjölnir lyfti sér úr fallsæti Pepsí deildar karla í fótbolta með því að leggja Fram 3-1 í sannkölluðum sex stiga leik í fallbaráttu deildarinnar.

Fjölnir var í næst neðsta sæti deildarinnar fyrir leik kvöldsins en með sigrinum er liðið með stigi meira en Fram og að auki fyrir ofan Keflavík á betri markamun í æsilegri fallbaráttu.

Það virtist sem aðeins annað liðið væri að spila upp á líf sitt í deildinni því Fjölnismenn börðust eins og ljón á meðan Framarar virkuðu andlausir.

Framarar virtust ekki klárir í að berjast upp á líf sitt sem hlýtur að vekja furðu í ljósi þess að liðið á FH og Stjörnuna í næstu leikjum áður það mætir Fylki í lokaumferðinni.

Varnarleikur Fram var ákaflega slakur og þurftu Fjölnismenn að hafa lítið fyrir mörkunum sem liðið skoraði þó ekkert sé tekið af liðinu sem lék vel.

Fjölnisliðið var mjög vel skipulagt og fékk einu færi fyrri hálfleiks og nýtti þau vel en fátt annað markvert gerðist í hálfleiknum.

Mun meira fjör var í seinni hálfleik en Framarar fóru þó ekki að ógna marki Fjölnis fyrr en þeir voru lentir þremur mörkum undir.

Gunnar Már Guðmundsson skoraði fyrsta mark leiksins á 26. mínútu með góðu skoti utan teigs og sex mínútum síðar bætti Þórir Guðjónsson við marki eftir mikinn klaufagang í vörn Fram.

Ragnar Leósson skoraði þriðja markið á níundu mínútu seinni hálfleiks en Fjölnir hefði hæglega getað skorað mun fleiri mörk í leiknum en liðið fékk bæði fleiri og betri færi en Fram það sem eftir lifði leiks þó Fram hafi fengið einu færin sín í leiknum í stöðunni 3-0.

Fyrir leikinn hafði Fjölnir aðeins unnið einn leik af síðustu sextán á meðan Fram hafði unnið þrjá af fimm. Fram náði ekki að taka þann meðbyr með sér í leikinn á sama tíma og Fjölnir fann þann kraft sem stundum hefur vantað í sumar.

Gunnar Már skoraði gull af marki í kvöld.vísir/stefán
Gunnar Már: Þetta small saman í kvöld

„Við hlupum meira og gerðum það sem þurfti. Eftir að við komumst 2-0 yfir var þetta þægilegt,“ sagði Gunnar Már Guðmundsson sem skoraði glæsilegt fyrsta mark leiksins í kvöld.

„Það var sjálfstraust í liðinu þegar við mættum inn á völlinn. Við þorðum að halda boltanum og gera hlutina einfalt sem hefur svolítið vantað hjá okkur. Þetta small saman í kvöld og við vorum betra liðið.

„Við vorum búnir að skoða Fram vel. Ágúst (þjálfari Gylfason) var búinn að segja okkur hvernig við áttum að mæta þeim og það gekk eftir. Svona seint í mótinu er erfitt að koma öðrum liðum á óvart.

„Við vorum klárir í þennan leik. Þegar við mættum þeim í fyrri umferðinni þá löbbuðu þeir yfir okkur og við vorum með það bakvið eyrað. Við vildum alls ekki að það myndi gerast aftur. Við unnum fyrir hvern annan og gerðum þetta eins og lið.

„Það eru erfiðir leikir eftir og þetta er alls ekki búið. Við þurfum fleiri stig til að halda okkur í deildinni,“ sagði Gunnar Már að lokum.

Guðmundur Steinn með boltann í kvöld.vísir/stefán
Guðmundur Steinn: Við þurfum að trúa

„Flest allt sem gat klikkað í kvöld gerði það. Í grunninn þarf að mæta til leiks með vilja og baráttu gegn körlum eins og við mættum í dag sem voru sprækir Fjölnismenn. Við byrjuðum að klikka þar og þá er þetta brekka,“ sagði Guðmundur Steinn Hafsteinsson fyrirliði Fram.

„Við náðum aldrei neinum takti í okkar leik og því spili sem við viljum. Það orsakast af því hvernig við mættum inn í leikinn. Það er mjög dapurt.

„Mér leið eins og menn veæru stemmdir þegar við mættum hingað í Laugardalinn en svo frá fyrstu mínútu var þetta dapurt.

„Ef ég tala fyrir sjálfan mig þá var ég ekki stressaður fyrir þennan leik en við fundum allir að það væri eitthvað undir og það á að vera gaman og þá eiga menn að stíga upp. Það gerðist ekki í dag, hjá engum okkar.

„Þeir svöruðu þeirri mótspyrnu sem þeir hafa verið að lenda í í leiknum í kvöld á meðan við koðnum niður. Það er áhyggju efni en við þurfum að rífa okkur upp úr þessu,“ sagði Guðmundur sem segir liðið ekki hafa aðra valkosti en að rífa sig upp í útileikjunum gegn tveimur efstu liðunum sem bíða í næstu tveimur umferðum.

„Ef við myndum ekki trúa því að við gætum náð úrslitum gegn FH og Stjörnunni þá myndum við panta miðann í fyrstu deildina strax. Við förum þangað til að ná í úrslit. Það er klárt. Við getum gert það en við þurfum að eiga toppleik, allir sem einn.

„Við þurfum úrslit og getum ekki bara beiðið eftir síðasta leiknum og reynt að gera eitthvað þar. Við eigum í okkur að ná í úrslit á móti toppliðunum. Við þurfum bara að kafa djúpt. Við áttum fínan leik á móti KR um daginn þar sem hefði getað farið betur. Við þurfum bara að trúa,“ sagði Guðmundur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×