„Almannavarnir leyfðu fjölmiðlum í fyrsta sinn síðdegis í gær að fara þarna inn. Við fórum í fylgd með lögreglu og björgunarsveitum alla leið að hrauninu,“ segir Kristján Már. „Við gengum síðan upp að gígunum og stóðum hreinlega á gígbarminum og horfðum niður í þetta.“
Kristján segir að þess hafi vandlega verið gætt að fréttamenn færu mjög varlega og lögregla hafi verið í stöðugu sambandi við almannavarnir til að fylgjast með hvort nokkurs óróa gætti.
„Það voru ströng tímamörk á því að við mættum bara vera þarna í tuttugu mínútur og svo fórum við,“ segir hann. „Manni verður nú bara hugsað til þess, ef þetta gos hefði komið upp þegar við vorum á staðnum þá hefði manni hitnað ansi mikið á afturendanum, verð ég að segja.“
Kristján og Egill voru sem betur fer á bak og burt þegar tók að gjósa í nótt. Þeir náðu nokkrum mjög flottum myndum af svæðinu í gær.




