Vísindamenn eru ekki sammála um hvernig túlka eigi nokkra sterka skjálfti sem urðu í dag í sjálfri öskju Bárðarbungu. Menn segja ýmist að þeir þýði að þrýstingnum sé að létta af eldstöðinni en einnig er hin skoðunin uppi, að hún sé þvert á móti að aukast.
Í Öskju, húsi Jarðvísindastofnunar, hafa vísindamenn verið að bera saman bækur í dag og meta líkur á eldgosi.
„Það er alveg möguleiki að þetta endi með eldgosi og þær líkur hafa ekkert minnkað," sagði Magnús Tumi Guðmundsson. „Það má kannski segja að eftir því sem þetta stendur lengur, þá eru kannski meiri líkur á að það gerist eitthvað. En ég held að það séu ekki meiri líkur á gosi heldur en að þetta endi á hinn veginn. Það veit náttúrega enginn," sagði Magnús.
Vísindamenn telja sig hafa grófa mynd af því sem hafi verið að gerast undir Vatnajökli síðustu sex daga, að kvika hafi streymt undan öskju Bárðarbungu og síðan tll norðausturs í átt að Dyngjujökli og þar sé hún búin að mynda 25 kílómetra langan berggang á 5 til 10 kílómetra dýpi. Af þrívíddarmynd Veðurstofu af skjálftunum má átta sig á hvar berggangurinn er undir jöklinum.

Kristín Vogfjörð, rannsóknarstjóri Veðurstofunnar, segir það sitt mat, með samtúlkun við gps-gögn, að þrýstingur sé að minnka í öskjunni og hún að síga.

Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld lýsti Magnús Tumi líklegri atburðarás, ef eldgos kæmi upp.