Fyrirtaka í málinu var fyrir dómi í dag í Toulon í Frakklandi og sér franski lögmaðurinn Olivier Aumaitre um málið fyrir íslensku konurnar sem geta átt von á miskabótum, um tveimur milljónum króna að hans sögn.
Fleiri gætu bæst við
Talið er að um fjögur hundrað íslenskar konur alls hafi fengið gallaðar brjóstafyllingar hér á landi og er enn möguleiki fyrir fleiri á næstu vikum að taka þátt í hópmálsókninni samkvæmt Lögmannsstofunni VOX sem sér um málið hér á landi en aldrei fyrr hafa svo margir íslendingar sótt mál saman eftir því sem næst verður komist.
Lögmaðurinn fær fimmtung
Konurnar greiða 25 þúsund krónur hver fyrir málsóknina og tekur lögmaðurinn svo 20 prósent af þeim skaðabótum sem konurnar mögulega fá. Konurnar hafa sjálfar séð um að sjúkragögn um sín mál komist til skila fyrir málsóknina og sagði Saga Ýrr Jónsdóttir lögmaður VOX í fréttum Stöðvar 2, þau almennt greinargóð frá læknunum hérlendis þótt misjafnt væri hve vel það gekk að fá gögn eftir læknum.

Önnur málsóknin ytra
Alls hafa 1700 konur farið í mál erlendis en þetta er önnur hópmálsóknin sem tekin er fyrir ytra vegna púðanna sem reyndust innihalda iðnaðarsílikon og olli mörgum konum miklu tjóni. TÜV Reihnland sem vottaði gæði gölluðu púðanna, var í fyrsta málinu dæmt til að greiða alls sautján konum þrjú þúsund evrur í skaðabætur og miskabætur leggjast svo ofaná það.
Þrjú þúsund evra verði kröfurnar samþykktar
Það kemur í ljós í lok þessa árs eða í byrjun þess næsta hvort fyrsta skrefið næst, að kröfur kvennanna verði samþykktar í Frakklandi og að þær fái hinar þrjú þúsund evra í skaðabætur hvor. Með því yrði svo áframhaldandi mat gert á mögulegu líkamstjóni og hvort greiði eigi út miskabætur líka til einhverra kvennanna.