Óskar Bjarni Óskarsson, aðstoðarþjálfari kvennaliðs Vals, var ekki ánægður með að stuðningsmenn Vals hefðu verið í minnihluta á leik Vals og Stjörnunnar í gær.
Þó svo Valsmenn hafi verið færri í stúkunni þá náðu Valskonur að tryggja sér oddaleik með sigri eftir framlengingu.
"Ég þakka þeim sem komu í kvöld þó að stúkan hafi verið blá (3/4 stúkunnar blá Valsheimaleik!!) þá heyrðist meira í ykkur," skrifaði Óskar Bjarni á Facebook eftir leikinn.
Þjálfarinn líflegi skorar á alla sem koma að íþróttum hjá félaginu að mæta á oddaleikinn á laugardag.
"Ég skora hér á mfl. karla í handbolta að mæta og styðja, skora hér á mfl. karla og kvenna í fótbolta að mæta. Ég skora hér einnig á mfl. karla og kvenna í körfu að mæta. Þjálfarar í mfl. stjórna þessu. Ágúst Björgvinsson, Helena Ólafsdóttir, Ragnar Óskarsson, Ólafur Stefánsson og Magnús Gylfason. Einnig skora ég hér á þjálfara í öllum deildum Vals fótbolta, handbolta og körfu að mæta með ykkar yngri flokk og styðja."
Nú er bara að bíða og sjá hverjir verða við kalli Óskars.
Óskar Bjarni vill sjá fleiri Valsmenn á vellinum

Tengdar fréttir

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Valur - Stjarnan 23-19 | Anna Úrsúla kláraði Stjörnuna
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir sá til þess að Valur náði að knýja fram oddaleik í úrslitarimmunni gegn deildarmeisturum Stjörnunnar um Íslandsmeistaratitilinn.