Jón Þór vakti athygli á þingfundi í dag þegar hann reif þrjá tíu þúsund krónu seðla. Vildi hann með því gagnrýna hvernig staðið væri að umræðum á þinginu vegna skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um fall sparisjóðina.
Kostnaður við skýrsluna væri um 600 milljónir króna og væri þeim kostnaði skipt yfir fimm klukkustundir sem væru áætlaðar til umræðu um skýrsluna á þinginu í dag svaraði kostnaðurinn til um 30 þúsund króna á sekúndu.

Jón Þór hefur ákveðið að láta peningana renna til Mæðrastyrksnefndar. Hann gerði sér ferð í bankann þar sem hann gat skipt rifnu seðlunum út fyrir heila.
„Við þingmenn höfum nóg á milli handanna. Mér fannst bara ágætt að láta þessa seðla fara til þeirra sem þurfa mest á þeim að halda,“ segir hann og minnir á laun þingmanna.
„Við fáum 630 þúsund krónur á mánuði plús 85 þúsund krónur ofan á það í starfskostnað sem rennur inn í launin ef við notum hann ekki. Þannig að við þingmenn höfum nóg,“ segir Jón.
„Ég hef nóg og hef alltaf haft nóg. Ég hef aldrei þurft mikla peninga og þess vegna hef ég haft nóg.“

„Það væri ágætt að við myndum þrýsta á þennan þingforseta að laga þessi vinnubrögð á þingi svo við förum að vinna fyrir laununum okkar,“ segir Jón Þór. Þingmenn minnihlutans hafi vegna þessa lagt fram lagafrumvörp sem eigi að leysa þessi vandamál.

En hvað veldur því að þingið taki skýrsluna til umfjöllunar á þennan hátt? Fjalli um málið svo fljótt eftir útgáfuna að erfitt er að mynda sér skoðun á því?
„Þetta er rannsóknarskýrsla um afglöp yfirvalda sem þýðir auðvitað margir þingmenn sem eru enn á þingi og þeirra flokksstarfsmenn og tengda aðila. Þannig að þetta er að sjálfsögðu óþægilegt fyrir marga vel tengda aðila í þessu samfélagi.“