Innlent

Mikilvægt að fara vel hvíldur út í umferðina

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Arnþór
Landsmenn munu vera meira á ferðinni en venjulega þar sem páskafrí er framundan. Nauðsynlegt er að huga að færð og veðri áður en lagt er af stað í fríið.

Á vef Vegagerðarinnar er hægt að sjá upplýsingar um færð á vegum landsins.

Á vef Veðurstofu Íslands er hægt að finna upplýsingar um veðurhorfur og veður á landinu.

Samkvæmt veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands verður sæmilegt veður um páskana. Talsverð rigning eða slydda og snjókoma inn til landsins verður þó seint á skírdag og 15 til 23 metrar á sekúndu. Hiti verður á bilinu núll til fimm stig.

Líkur eru á því að færð geti spillst og hætt er við hálku á. Tryggingarfyrirtækin Sjóvá og VÍS sendu frá sér tilkynningar í dag þar sem fólk er hvatt til að fara varlega í umferðinni og leggja vel hvílt af stað.

Talið er að um 20 prósent banaslysa í umferðinni hér á landi megi rekja til þreytu. Þá kom í ljós að í nýlegri rannsókn á vegum Samgöngustofu segja tíu prósent ökumanna að þeir hafi oft eða stundum skyndilega orðið mjög syfjaðir við akstur. Átta prósent segjast hafa dottað við akstur.

Þreyta hefur mikil áhrif á viðbrögð ökumanna og árvekni í umferðinni. Ökumaður sem sofnar undir stýri ógnar ekki eingöngu sínu eigi öryggi, heldur annarra í umferðinni.

Meðal þeirra ráða sem Sjóvá mælir með er að vera úthvíldur áður en lagt er af stað í ferðalag. Gott sé að taka sér hlé frá akstri á tveggja tíma fresti og að skiptast á að aka bílnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×