Ísland kom fram hefndum gegn Svíþjóð frá tapinu á EM síðasta sumar með því að vinna Svía, 2-1, í leiknum um þriðja sætið á Algarve-mótinu í fótbolta í dag. Fékk íslenska liðið því bronsverðlaun á mótinu og er þetta í annað sinn sem liðið fær verðlaun á Algarve.
Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði fyrra mark Íslands á 28. mínútu þegar hún slapp ein í gegnum vörn Svía og kom boltanum í netið, samkvæmt lýsingu á Facebook-síðu KSÍ.
Aðeins þremur mínútum síðar barst boltinn aftur inn fyrir vörn Svía þar sem markadrottning Harpa Þorsteinsdóttir var með allt á hreinu og jók forystu Íslands í 2-0. Þannig stóð í hálfleik.
Strax á fyrstu mínútu seinni hálfleiks fékk FanndísFriðriksdóttir dauðafæri sem henni tókst ekki að nýta en Svíar sóttu þó meira í síðari hálfleik.
Íslenska liðið varðist vel í seinni hálfleik en tókst þó ekki að halda hreinu. Þær sænsku minnkuðu muninn, 2-1, með marki Antoniu Göransson á 90. mínútu leiksins.
Okkar stúlkur héldur þó út í uppbótartímanum og lönduðu fræknum og góðum sigri á sterku liði Svíþjóðar sem komst í undanúrslit á EM á heimavelli síðasta sumar með því að vinna Ísland, 4-0.
Freyr Alexandersson var að stýra íslenska liðinu í fyrsta skipti á Algarve-mótinu og vann til verðlauna með liðið á sínu fyrsta móti. Stelpurnar fengu skell gegn Þjóðverjum í fyrsta leik en hristu hann af sér og unnu þrjá leiki í röð; gegn Noregi, Kína og Svíþjóð.
Dóra María Lárusdóttir var fyrirliði íslenska liðsins í dag í sínum 100. landsleik en Þóra B. Helgadóttir spilaði einnig sinn 100. landsleik fyrr á mótinu.

