Handbolti

Snorri: Væri gaman að stríða Dönum hérna

Henry Birgir Gunnarsson í Herning skrifar
"Þetta verður gaman. Svona á þetta að vera og fínt ef þetta væri svona á hverjum einasta leik," sagði Snorri Steinn Guðjónsson eftir æfingu íslenska landsliðsins í dag.

Strákarnir voru að undirbúa sig fyrir lokaleik milliriðilsins sem er gegn Dönum. Stemningin á leiknum á eftir að vera rosaleg eins og í fyrri leikjum Dana í keppninni.

"Þetta eru skemmtilegustu leikirnir. Auðvitað væri skemmtilegra ef þetta væri hreinn úrslitaleikur um sæti í undanúrslitum. Staðan er eins og hún er en við hljótum að geta gefið allt í þennan leik."

"Þetta skiptir máli fyrir okkur og það gæti verið gaman að stríða Dönum hérna. Við munum gera allt sem við getum til þess að gera þetta að alvöru leik."

Þó svo einhverjir lykilmenn verði hvíldir þá veit Snorri sem er að hópur Dana er sterkur.

"Þetta er eitt besta landslið heims og kannski það besta. Þeir eiga tvo menn í hverja stöðu. Það er ekki í blóðinu hjá þeim að slappa af og þeir verða með allt þetta fólk á bak við sig. Það ætti að kveikja í þeim þó svo þessi leikur skipti þá ekki höfuðmáli."

Snorri lék með danska stórliðinu AG á sínum tíma og tók þá meðal annars þátt í leikjum á Parken.

"Ég held það verði meiri stemning hér. Það var sérstök upplifun á Parken og frábært. Stemningin hér er stórkostleg og þetta verður gaman. Þessi stemning er með því betra sem maður hefur séð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×