Handbolti

Ná strákarnir fullu húsi í milliriðli í fyrsta sinn?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson og Björgvin Páll Gústavsson.
Aron Pálmarsson og Björgvin Páll Gústavsson. Vísir/Daníel
Íslenska handboltalandsliðið mætir gestgjöfum Dana í lokaleik milliriðils eitt á Evrópumótinu í handbolta í kvöld og getur með sigri náð í öll stigin sem voru í boði í milliriðlinum. Landsliðið væri þá að setja nýtt íslenskt met.

Íslenska handboltalandsliðið hefur aldrei unnið alla leiki sína í milliriðli á stórmóti en þetta er í fjórða sinn sem strákarnir okkar ná því að vinna tvo leiki í milliriðli.

Ísland hefur unnið góða sigra á Austurríki og Makedóníu í tveimur fyrstu leikjum sínum á Evrópumótinu í Danmörku en þetta er í fyrsta sinn sem íslenska karlalandsliðið vinnur tvo fyrstu leiki sína í milliriðli.

Íslenska liðið fékk 5 stig af 6 mögulegum í milliriðli á bæði EM í Svíþjóð 2002 og á EM í Austurríki 2010 en á báðum þessum mótum komst íslenska liðið í undanúrslitin. Ísland vann einnig tvo leiki í milliriðli á HM í Þýskalandi 2007 en þá voru fjórir leikir í milliriðlinum.

Leikur Íslands og Danmerkur hefst klukkan 19.30 í kvöld en hann verður í beinni textalýsingu hér á Vísi sem og að Guðjón Guðmundsson lýsir leiknum beint á Bylgjunni.



Flestir sigurleikir hjá Íslandi í milliriðli á stórmóti:

2 - EM 2014 (2 leikir, einum ólokið)

Ísland - Austurríki     33-27

Ísland - Makedónía    29-27

Ísland - Danmörk    ???

2 - EM 2002 (3 leikir, 1 jafntefli)

Ísland - Frakkland     26-26

Ísland - Júgóslavía     34-26

Ísland - Þýskaland     29-24

2 - HM 2007 (4 leikir, 2 töp)

Ísland - Túnis     36-30

Ísland - Pólland     33-35

Ísland - Slóvenía     32-31

Ísland - Þýskaland     28-33

2 - EM 2010 (3 leikir, 1 jafntefli)

Ísland - Króatía     26-26     

Ísland - Rússland     38-30

Ísland - Noregur     35-34    




Fleiri fréttir

Sjá meira


×