Handbolti

Þetta verður sannkallað stríð

Henry Birgir Gunnarsson í Álaborg skrifar
Varnartröllið brosmilda, Sverre Andreas Jakobsson, er væntanlega að taka þátt í sínu síðasta stórmóti. Hann hefur þó ekki tekið endanlega ákvörðun um að leggja skóna á hilluna eftir tímabilið.

"Ég er spenntur fyrir leiknum. Ég hugsa ekki mikið um að þetta sé síðasta mótið heldur reyni að einbeita mér að verkefninu," segir Sverre.

"Ég ætla að hafa mjög gaman af þessu. Ég er samt ekkert viss um að ég verði brosandi allan daginn."

Sverre hættir að spila með þýska liðinu Grosswallstadt næsta sumar og er enn að melta framhaldið.

"Ég ætla að skoða möguleikana sem ég hef úti. Án liðs er erfitt að vera í landsliðinu. Það eru meiri líkur en minni að ég hætti í sumar. Ég lít því á þetta sem mitt síðasta stórmót."

Sverre hefur oft lent í hörkurimmum gegn Norðmönnum og staðið í ströngu í vörninni.

"Þetta verður sannkallað stríð. Bæði lið þekkjast vel og erum ágætis félagar. Þetta var svakalegt fyrir tveim árum. Við verðum að vera vel vakandi en þetta verður skemmtilegt."

Viðtalið við Sverre í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×