Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari, hefur ákveðið að kalla Arnór Þór Gunnarsson til móts við landsliðið í Álaborg vegna óvissu með Þóri Ólafsson.
Þórir var fyrir meiðslum á læri í gær þegar Ísland gerði jafntefli við Ungverja 27-27 og þurftu þeir Rúnar Kárason og Ásgeir Örn Hallgrímsson að leysa stöðu hornamannsins í leiknum í gær.
Arnór kemur til móts við liðið í dag en Ísland mætir Spánverjum í lokaleik riðilsins á morgun. Ísland er komið áfram í milliriðilinn og fer í það minnst þangað með eitt stig.
