Handbolti

Frakkar sendu Serba heim - Pólverjar og Rússar áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Karabatic.
Nikola Karabatic. Mynd/AFP
Frakkland fer með fullt hús inn í milliriðil tvö eftir þriggja marka sigur á Serbum í kvöld, 31-28, í lokaleik C-riðils á Evrópumótinu í handbolta í Danmörku. Serbar eru aftur á móti á heimleið eftir riðlakeppnina aðeins tveimur árum eftir að þeir fóru alla leið í úrslitaleik EM.  

Serbar urðu að ná í stig til þess að komast upp úr riðlinum en sitja nú eftir á minnsta mun. Pólland, Rússland og Serbía eru öll með tvö stig en Serbarnir eru með lakasta árangurinn í innbyrðisleikjum þessara þriggja liða og eru því á heimleið.

Pólverjar töpuðu tveimur fyrstu leikjum sínum með eins marks mun en liðið fer með tvö stig inn í milliriðilinn eftir magnaðan endurkomusigur á Rússum fyrr í dag.

Sigur Frakkar var öruggur og Serbarnir gerðu sig aldrei líklega til að ná einhverju út úr þessum leik í kvöld. Frakkar komust í 6-1 og voru 17-12 yfir í hálfleik. Frakkar náðu mest átta marka forskoti í seinni hálfleiknum en Serbar löguðu aðeins stöðuna undir lokin.

Hvít-Rússar tryggðu sér sæti í milliriðlinum með 29-23 sigri á Svartfjallalandi en staðan var 13-13 í hálfleik.

Liðin í milliriðli tvö:

Króatía 4 stig (+12)

Frakkland 4 stig (+8)

Svíþjóð 2 stig (+7)

Pólland 2 stig (+1)

Rússland 0 stig (-9)

Hvíta-Rússland 0 stig (-19)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×