Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari þurfti að gera eina breytingu á landsliðshópi sínum í morgun. Arnór Atlason getur ekki haldið áfram leik og í hans stað er kominn hægri hornamaðurinn Arnór Þór Gunnarsson.
Arnór stífnaði upp eftir fyrsta leik Íslands á mótinu og hefur ekki náð að jafna sig síðan. Hann gat ekki spilað gegn Spáni og hefur ekkert æft síðustu daga. Það er útséð með að hann geti spilað meira.
Þetta er önnur breytingin sem gerð er á íslenska hópnum en áður hafði Ólafur Andrés Guðmundsson komið inn í hópinn.
Ólafur þarf að stíga upp í fjarveru Arnórs og ekki síst í ljósi þess að Aron Pálmarsson er laskaður og þarf að fá sína hvíld.
