Sport

Sveinbjörg bætti 29 ára gamalt met

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hornarfjarðarmærin er ein öflugasta sjöþrautarkona Íslands.
Hornarfjarðarmærin er ein öflugasta sjöþrautarkona Íslands. Vísir/Daníel
Frábær umgjörð var á frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna sem fram fór í Laugardalshöll í gær.

Sveinbjörg Zophoníasdóttir úr FH sló 29 ára gamalt met Bryndísar Hólm í flokki 22 ára og yngri í langstökki. Sveinbjörg stökk 6,12 metra sem dugði til þriðja sætis í langstökkskeppninni.

Sveinbjörg bætti sinn besta árangur innanhúss um 13 sentímetra. Utanhúss hefur hún þó lengst stokkið 6,27 metra en það gerði hún árið 2012.

Þá varpaði FH-ingurinn lengst allra kúlu (13,11 metra) og hljóp á persónulegu meti í 60 metra grind. Greinarnar þrjár voru liður í þríþraut innan Reykjavíkurleikanna og vann Sveinbjörg stigakeppnina með 2733 stig.

Nokkrir keppendur bættu sig á mótinu. Björg Gunnarsdóttir úr ÍR kom í mark í 60 metra hlaupi kvenna á 7,79 sekúndum og Hafdís Sigurðardóttir úr UFA bætti sinn besta árangur í langstökki innanhúss með stökki upp á 6,21 metra.

Fleiri fréttir af frjálsíþróttakeppni RIG má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×